Freðnir NBA leikmenn, æfingabúðir með krakkanum LeBron James, fyllerí með Steve Nash og Dirk Nowitzki, útlendingar með íslensk nöfn, buddan hjá Degi B. Eggertssyni, kaupmennska á horninu, mormóninn Shawn Bradley á strippklúbbi, Evrópukeppni í körfubolta og Antoine Walker, sem notaði aldrei sama skóparið tvisvar og geymdi peningarúllur í bakpoka. Þetta er meðal þess sem kemur fram í fyrsta þætti Hismisins þennan vetur þar sem viðmælandinn er körfuboltahetjan, kaupmaðurinn, Laugarnesingurinn og He-Man kallinn Jón Arnór Stefánsson. Þar upplýsir hann einnig um framtíðaráform sín og hvert hugur hans stefnir eftir að atvinnumannaferlinum lýkur. Jón Arnór reiknar með því að spila tvö tímabil í viðbót sem atvinnumaður erlendis.
Eftir langt sumarfrí og stranga stefnumótunarvinnu snýr Hismið, í umsjón Árna Helgasonar og Grétars Sveins Theodórssonar, aftur í hlaðvarp Kjarnans. Þeir verða á dagskrá alla fimmtudaga í vetur.