Í þessum fyrsta þætti annarrar þáttaraðar Klikksins mun Svava Arnardóttir Iðjuþjálfi og Hugaraflskona, taka viðtal við Daniel Fisher geðlækni með lifaða reynslu af geðklofa. Spjall þeirra fer um víðan völl en þau taka fyrir geðheilbrigðismál hérlendis sem og í Bandaríkjunum.
Daniel Fisher er geðlæknir frá Harvard Medical háskólanum. Hann er einn af fáum geðlæknum í heiminum sem talar opinberlega um reynslu sína af geðsjúkdómum. Hann hefur þrisvar áður komið til Íslands með fyrirlestra og vinnusmiðjur á vegum Hugarafls, en þær fjölluðu um hugmyndafræðina á bakvið Batamódelið, þ.e. PACE módelið (Personal Assistance in Community Existence) sem byggir á valdeflingu (e. empowerment). Síðast kom Fisher til landsins með námskeið í eCPR – andlegt hjartahnoð höfum við kosið að kalla það á íslensku – en það er lýðheilsukennsla fyrir alla, þróuð til að kenna fólki að hjálpa öðrum í gegnum tilfinnanlega krísu.Fisher er framkvæmdastjóri National Empowerment Center í Boston. Hann fer víða um heim og ræðir reynslu sína auk þess sem hann hjálpar til að innleiða batahugmyndafræði.
Svava er brautryðjandi í því að móta nýtt starf hjá Hugarafli sem byggir á endurhæfingu og valdeflingu. Hún er með hópstarf og vinnur að mikilvægum verkefnum með ungu fólki. Áður en hún hóf störf hjá Hugarafli var hún notandi Hugarafls og hefur náð ótrúlegum árangri í bata. Hún útskrifaðist úr Iðjuþjálfun við Háskólann á Akureyri og skrifaði lokaritgerð sína um batahvetjandi meðferðaraðila.