Staðan innan Framsóknarflokksins minnir helst á sjónvarpsþáttaröð sem gerð hefur verið úr samblöndu af handritum Dallas og X-files. Samsæriskenningar fljúga, vænisýki gagnvart óvinum innan og utan flokksins eykst dag frá degi og dramatíkin í persónulegum samskiptum aðalleikenda er nánast áþreifanleg.
Á sama tíma er Sjálfstæðisflokkurinn að hafna öllum reyndu þingkonunum sínum, nýjar konur á listum sitja fyrst og fremst í baráttusætum og efstu menn eru að mestu miðaldra karlar steyptir í svipað mót. Flokkurinn liggur undir ámæli, sérstaklega frá konum úr röðum hans, fyrir að velja alltaf bara eina reynda konu til forystu en stilla síðan upp nokkrum ungum og efnilegum á lista til að ásýndin verði ekki jafn karllæg.
Og svo kom út skýrsla á vegum meirihluta fjárlaganefndar sem líkist meira óprófarkarlesinni menntaskólaritgerð um ásakanir Víglundar Þorsteinssonar um endurskipulagningu bankakerfisins en alvöru afurð þingnefndar. Önnur skýrsla, unnin fyrir fjármála- og efnahagsráðuneytið, sem kom út nýverið var heldur betur unnin. Hún fjallaði um íslensku aldamótakynslóðina og hvernig hún hefur dregist aftur úr í tekjum og tækifærum miðað við þær sem á undan henni komu. Hægt er að færa rök fyrir því að staða aldamótakynslóðarinnar, þeirra sem eru fæddir á árunum 1980-1995, og krafa hennar um breytingar muni móta komandi kosningar að stóru leyti.
Svo þurfa auðvitað allir að tala um Hillary. Og Donald.
Þetta og margt fleira í fyrsta Kvikuþætti vetrarins þar sem Þórunn Elísabet Bogadóttir, aðstoðarritstjóri Kjarnans, og Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri hans, fara yfir það helsta sem er á döfinni í þjóðfélagsumræðunni.