Framsóknarflokkurinn hélt áhugafólki um pólitík á sætisbrúninni alla helgina. Ásakanir um einræði, tæknifúsk og almenn óheilindi voru bara forsmekkurinn af dramatíkinni sem eftir fylgdi. Eftir tap í formannskosningum átti Sigmundur Davíð Gunnlaugsson eina mögnuðustu útgöngu íslenskrar stjórnmálasögu. Í kjölfar hennar hafa flokið ásakanir um að flokkseigendafélagið og fjármálaöflin hafi valdið af grasrótinni í flokknum og æsilegar sögur settar fram um kosningasvindl.
Á sama tíma er kosningaloforðaflaumurinn að hefjast, enda örfáar vikur í kosningar. Samfylkingin kynnti sitt húsnæðisloforð fyrir fátækt eignarlaust fólk sem mun líklega vinna jafn lítið á heildarvandanum á húsnæðismarkaði og „Fyrsta fasteign“ ríkisstjórnarinnar, en hún er ætluð fyrir það eignarlausa fólk sem hefur efni á séreignarsparnaði.
Misskipting auðs, mæld í krónum en ekki í hlutföllum, eykst ár frá ári og sífellt lendir meira af nýjum auði hjá þeim sem eiga mest. Stór hluti þess hóps er í þeim álnum sem hann er vegna góðs aðgengis að tækifærum eða vegna auðlindanýtingar. Niðurstaða þessa kerfis mikillar misskiptingar auðs er það samfélag traustsleysis sem Íslendingar búa við í dag.
Þetta og margt fleira í Kvikuþætti vikunnar þar sem Þórunn Elísabet Bogadóttir, aðstoðarritstjóri Kjarnans, og Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri hans, fara yfir það helsta sem er á döfinni í þjóðfélagsumræðunni.