Staðan i stjórnarmyndunarviðræðum er orðin enn flóknari en hún var. Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, virtist afar pirraður yfir því að Viðrein og Björt framtíð hafi lagt jafn mikla áherslu á helstu stefnumál sín í viðræðum undanfarna daga og raun bar vitni þegar hann tilkynnti forseta Íslands að hann væri án viðmælenda.
Nú hefst lota tvö þar sem Katrín Jakobsdóttir hefur fengið stjórnarmyndunarumboð og reynir, að minnsta kosti í orði, að mynda fimm flokka ríkisstjórn frá miðju til vinstri. Þeir sem eiga að sitja í þeirra ríkisstjórn eru hins vegar þegar farnir að hnakkrífast opinberlega, ásaka hvorn annan um lygar og óheilindi og fyrir að hafa komið sér í „ómögulega stöðu“. Þeir flokkar eru því sjálfum sér verstir, sé þeirra helsta markmið að halda Sjálfstæðisflokknum utan ríkisstjórnar.
Vinstri græn hafa auðvitað fleiri kosti, t.d. þriggja flokka ríkisstjórn með Sjálfstæðisflokki og þriðja flokki, mögulega Framsóknarflokki. Flokkurinn þarf ekki að líta til annars en þeirrar meðferðar sem Óttarr Proppé, formaður Bjartrar framtíðar, fékk í umræðunni um liðna helgi til að sjá hvað bíður þeirra í gagnrýni verði sú niðurstaða ofan á í lotu þrjú.
Þetta og allt hitt sem skiptir máli varðandi flóknustu stjórnarmyndun síðari tíma er til umfjöllunar í Kviku vikunnar. Umsjónarmenn eru að venju Þórunn Elísabet Bogadóttir, aðstoðarritstjóri Kjarnans, og Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri hans.