Byrjað er að ræða um nýjar kosningar í ljósi þess að erfiðlega hefur gengið að mynda nýja ríkisstjórn. Það er þó meira en bara að segja það að fara í slíkar, enda dýrt, flókið og lýjandi að fara í kosningabaráttu. Vafamál er hvort flestir stjórnmálaflokkar landsins hafi raunverulega efni á tveimur kosningabaráttum á hálfu ári. Þess utan eru enn möguleikar til að mynda ríkisstjórnir. Þetta er meðal þess sem rætt er í Kviku vikunnar.
Þar er einnig farið yfir slit á stjórnarmyndun fimm flokka, yfirtöku lífeyrissjóða á húsnæðislánamarkaðnum, ást Íslendinga á verðtryggðum lánum, kjarasamninga kennara, tafirnar á rannsókninni á Hauck&Aufhäuser og þá staðreynd að 25 þúsund Íslendingar hafa ekki efni á því að fara til tannlæknis. Umsjónarmenn eru að venju Þórunn Elísabet Bogadóttir og Þórður Snær Júlíusson.