Ríkisstjórnin sem er í myndun virðist fara alveg óstjórnlega í taugarnar á Morgunblaðinu og stjórnendum þess, sem ráðnir voru til að stilla af þjóðfélagsumræðuna um Icesave, Evrópusambandið og sjávarútvegsmál. Blaðið reynir hvað það getur að trufla stjórnarmyndunarviðræðurnar. Það gera Framsókn og Vinstri græn líka, og opna nú á viðræður við Sjálfstæðisflokkinn um myndun nýrrar íhaldsstjórnar þvert yfir hið pólitíska litróf.
Þótt formaður Sjálfstæðisflokksins sé ekki enn orðinn forsætisráðherra flutti hann sína útgáfu af áramótaávarpi og sagði það vera „geðveiki“ hjá fólki að sjá ekki hversu gott við hefðum það á Íslandi. Þær yfirlýsingar manns sem hefur aldrei upplifað þær lífsáskoranir sem flestir þurfa að takast á við er með ódýrustu frösum sem nútímapólitík býður upp á. Flestir upplifa t.d. annars konar húsnæðisvanda á sinni lífsleið en að velkjast í vafa um á hvaða götu í Garðabæ sem endar á -flöt viðkomandi eigi að kaupa sér skuldlaust einbýlishús.
Þetta, áramótaávörp, fasteignamarkaður, Áramótaskaupið og allt hitt í fyrstu Kviku ársins. Stjórnendur eru sem fyrr Þórunn Elísabet Bogadóttir og Þórður Snær Júlíusson.