Krafa útgerðarinnar og valdra stjórnmálamanna um að ríkið niðurgreiði hluta af launum sjómanna er ekki almenn aðgerð og gæti mögulega verið á skjön við EES-samninginn. Í deilunni er þó verið að beita sjómönnum fyrir stórútgerðina með svipuðum hætti og þegar flotanum var siglt í land árið 2012 til að mótmæla veiðigjöldum. Á meðan eru stórútgerðarmenn orðnir ævintýralega ríkir á evrópskum mælikvarða og dæla peningum í stjórnmálaflokka- og -menn og fjölmiðla til að verja hagsmuni sína. Málið er enn eitt dæmið um þær sýnilegu sprungur sem myndast hafa í viðkvæmu stjórnarsamstarfi óvinsællar ríkisstjórnar á þeim rúma mánuði sem hún hefur starfað.
Karlar stýra nær öllum peningum á Íslandi. Á því er ekki að verða nein breyting og ekki er sýnilegur vilji til að rugga þeim karllæga heimi. Undirliggjandi er sú skoðun að konur séu bara ekki jafn hæfileikaríkar og karlar. Eða að þær séu bara latar. Sem er bæði bull.
Svo er Trump að takast að slá öll met í þvælu og er að ná óvinsældum sem eru vart þekktar hjá vestrænum stjórnvöldum á fyrstu metrum stjórnartíðar, ef frá er skilin sitjandi ríkisstjórn á Íslandi.
Þetta og allt hitt í Kviku vikunnar með Þórunni Elísabetu Bogadóttur og Þórði Snæ Júlíussyni.