Í þætti dagsins er á dagskrá sívaxandi söfnuður kaþólsku kirkjunnar, álitshnekkir Íslands eftir að hafa lent á gráum lista FATF yfir ríki sem hafa ekki nægar varnir gegn peningaþvætti og hvernig Deutsche Bank taldi að „skaðleg umfjöllun“ um samkomulag sem bankinn gerði við Kaupþing í lok árs 2016 myndi valda kerfisáhættu fyrir heiminn – hvorki meira né minna.
Í síðustu viku lenti Ísland á þessum umtalaða gráa lista samtakanna Financial Action Task Force (FATF) yfir ríki sem hafa ekki nægar varnir gegn peningaþvætti en Kjarninn hefur fjallað gríðarlega mikið um þessi málefni á undanförnum misserum. Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði í síðustu viku í samtali við fréttastofu RÚV að það yrðu gríðarleg vonbrigði ef Ísland lenti á gráum lista um ósamvinnuþýð lönd. Hún sagði enn fremur að hún teldi að þarna væri verið að bregðast ansi hart við þeirri stöðu sem raunverulega væri uppi.
Kaþólski söfnuðurinn hefur vaxið gífurlega hratt hér á landi á síðustu árum. Kaþólska kirkjan er í dag annað stærsta trúfélag landsins með yfir 14.400 einstaklinga skráða í söfnuðinn. Þessa aukningu má rekja beint til gríðarlegrar fjölgunar erlendra ríkisborgara á Íslandi, en stærstu hóparnir sem hingað flytja koma frá löndum þar sem kaþólska kirkjan er sterk. En hvernig gengur til að mynda að aðlaga trúarmenningu sem þessa hér á landi?
Í þriðja lagi er fjallað um Deutsche Bank og vandræði hans. Kjarninn skýrði frá því að bankinn hefði talið að „skaðleg umfjöllun“ um samkomulag sem hann gerði við Kaupþing í lok árs 2016 myndi valda kerfisáhættu fyrir heiminn. Bankinn fór sem sagt fram á algjöra leynd yfir innihaldi samkomulags vegna hins svokallaða CLN-máls. Mjög mikilvægt væri að innihald samkomulagsins myndi ekki koma fyrir augu almennings og að ekki myndi spyrjast út hvað bankinn hefði gert. Afleiðingarnar gætu valdið kerfislægri áhættu gagnvart efnahag Þýskalands, Evrópusambandsins og heimsins alls.
Bára Huld Beck stýrir þættinum í dag en með henni eru Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Kjarnans, og Birna Stefánsdóttir, blaðamaður.