Í þætti vikunnar fer ritstjórn Kjarnans yfir eftirmála Samherjamálsins, mótmæli og viðbrögð. Hún veltir jafnframt fyrir sér pólskum veruleika á Íslandi og stökki Miðflokksins í skoðanakönnun.
Nú eru tvær vikur frá því að Kveikur og Stundin opinberuðu Samherjaskjölin. Í kjölfarið hefur forstjóri Samherja stígið til hliðar, tveir ráðherrar í Namibíu hafa sagt af sér embætti og annar þeirra hefur jafnframt handtekinn. Þá er málið til rannsóknar hjá yfirvöldum í það að minnsta kosti þremur löndum.
Fjölmennur mótmælafundur var haldinn á Austurvelli síðasta laugardag en þar mættu á fimmta þúsund manns og kröfðust afsagnar Kristjáns Þórs Júlíussonar sjávarútvegsráðherra, nýrrar stjórnarskrár og að arður af nýtingu sameiginlegra auðlinda landsmanna nýtist til uppbyggingar samfélagsins.
Pólverjar hafa búið á Íslandi til fjölda ára en í sumar fóru þeir yfir 20 þúsunda múrinn og eru þeir langfjölmennasti hópur innflytjenda hér á landi. Þetta hefur í för með sér ýmsar samfélagsbreytingar, bæði fyrir fólkið sem fyrir er og þá sem koma.
Miðflokkurinn mældist með 16,8 prósent í síðustu MMR könnun og er næst stærsti flokkur landsins á eftir Sjálfstæðisflokknum sem hefur aldrei mælst með lægra fylgi í könnun MMR eða 18,1 prósent.
Birna Stefánsdóttir stjórnar þættinum og með henni eru Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Kjarnans, og Bára Huld Beck, blaðamaður.