„Auðvitað er þetta ákveðið form af trúnaðarbresti. Ég reikna með því að það verði ekki erfitt að sannfæra þessa aðila um að það sé þörf á að hækka starfsmenn þeirra svipað og þeir fengu sjálfir. Þeir hljóta að vera sammála rökunum,“ segir Gylfi Arnbjörnsson, forseti Alþýðusambands Íslands (ASÍ), um launahækkanir stjórnenda stórra íslenskra fyrirtækja sem voru langt umfram þær almennu launahækkanir sem hans félagsmenn sömdu um í fyrra. Gylfi, sem var fyrr í dag endurkjörinn í embætti forsetaASÍ til tveggja ára á þingi sambandsins, er gestur Kvikunnar að þessu sinni.
Í þætti dagsins fer Gylfi meðal annars yfir komandi átöku á vinnumarkaði, versnandi samskipti við stjórnvöld og óánægju innan raða aðildarfélaga ASÍ með forystu sambandsins.
[caption id="attachment_10442" align="aligncenter" width="1024"] Gylfi Arnbjörnsson var endurkjörinn í embætti forseta ASÍ í dag.[/caption]
Hann telur það ekki hafa verið mistök að semja um 2,8 prósent launahækkanir í desember í fyrra með það fyrir augum að ná stöðugleika í samfélaginu. Ákall hafi verið á meðal félagsmanna hans um slíkan stöðugleika og til að reyna að ná honum hafi þurft samstöðu allra sem að borðinu koma. „Það verður bara að viðurkennast, að það tókst ekki í þetta sinn. Það var þannig að aðrir tóku sér meiri launahækkanir.“
Þar vísar Gylfi í að ríki og sveitarfélög hafi hækkað laun kennara, leikskólakennara og háskólamenntaðra starfsmanna langt umfram það sem samið var um í kjarasamningum aðildarfélaga ASÍ. Auk þess hafi komið í ljós að mýmargir stjórnendur íslenskra fyrirtækja, meðal annars í fjármálageiranum, hafi upplifað launaskrið langt umfram þá hækkun sem félagsmönnum Gylfa bauðst. Skýlaus krafa aðildarfélaga ASÍ í komandi kjarnasamningum verður að félagsmenn þeirra fái að njóta sambærilegra hækkanna.