„Það verður bara að segja hlutina eins og þeir eru. Núna árið 2015, sex og hálfu ári eftir að stjórnmálamennirnir köstuðu inn hvíta handklæðinu með neyðarrétti þegar allt var í klessu hjá þeim, þá geta þeir ekki komið sér saman um grundvallaratriði í landinu sem eru ekki eftir pólitískum línum. Dæmi: húsnæðiskerfi.“ Þetta er meðal þess sem kemur fram í Kviku vikunnar.
Þegar verið sé að fara að stíga fyrstu skref í átt að losun hafta sé röð af risastórum deilumálum á dagskrá þingsins, sem sé ótrúleg staða. „Það er verið að misbjóða almenningi með svona stjórn.[...]Auðvitað ætti allur fókus í þinginu að vera á höftunum,“ segir Magnús Halldórsson, annar þáttarstjórnandi Kvikunnar í þætti dagsins.
Þar fara hann og Þórður Snær Júlíusson yfir stöðu húsnæðismála, Leiðréttinguna sem er farin að hækka skuldir okkar, sæstrengssamningur Norðmanna og hvað valdi því að Íslendingar séu ekkert að gera í þeim málum, skýrslu Frosta Sigurjónssonar um betri peningakerfi, þá ömurlegu staðreynd að karlar sitji í 81 af 87 æðstu stjórnendastörfum innan fjármála- og fjárfestingageirans og bakatjaldamakk Seðlabankans með kröfur á Sparisjóðabankann. Svo er aðeins farið yfir páskahagkerfið, sem veltir ótrúlegum fjárhæðum.
Gleðilega páska!