Um þessar mundir eru sex ár frá því að fjármálamarkaðir heimsins gengu í gegnum mestu og skörpustu lægð sem myndast hefur á fjármálamörkuðum frá því í kreppunni miklu. Tryggvi Björn Davíðsson, framkvæmdastjóri markaða hjá Íslandsbanka, var áður starfsmaður Barclays bankans í London og hafði einstaka innsýn í það sem gekk á þegar hagkerfi heimsins nötruðu og bankar féllu um allan heim. Hann var í miðju stormsins, ef svo má segja. „Þetta var mikil reynsla,“ segir Tryggvi Björn en hann er gestur í hlaðvarpsþættinum Kvikunni, sem aðgengilegur er á vefnum og í Podcast straumi Kjarnans í Appi. Í þættinum ræðir hann meðal annars um muninn á íslenska fjármálamarkaðnum agnarsmáa og síðan þeim breska.
Tryggvi Björn ræðir um endurreisn skuldabréfa- og hlutabréfamarkaðarins á Íslandi á þeim sex árum sem liðin eru frá hruni, og það mikla uppbyggingarstarf sem enn er í gangi á íslenska fjármálamarkaðnum, sem hann segir að hafi um margt gengið vel. „Frá því að ég hóf störf hefur hlutabréfamarkaðurinn farið úr því að vera 10 prósent af árlegri landsframleiðslu í 30 prósent, þannig að hann hefur þrefaldast. En hann er ennþá helmingi minni en hann þyrfti að vera, miðað við stöðuna í löndunum í kringum okkur,“ segir Tryggvi Björn.