Ólafur Stephensen, nýráðinn framkvæmdastjóri Félags atvinnurekenda, telur að það eigi að skoða hvort Samkeppniseftirlitið eigi að brjóta upp starfsemi Mjólkursamsölunnar. Hann hefur átt samtöl við þá litlu aðila sem eru í samkeppni við Mjólkursamsöluna og segir að það sé „kolvitlaust að gera hjá þeim af því að neytendur eru einmitt að beina viðskiptum sínum í þessar vörur þessa daganna." Ólafur er gestur Kvikunnar að þessu sinni.
[caption id="attachment_9145" align="aligncenter" width="1024"] Þórður Snær Júlíusson, ritstjóri Kjarnans og annar umsjónarmaður Kvikunnar, ásamt gesti dagsins, Ólafi Stephensen. Ólafur tók nýverið við starfi framkvæmdastjóra Félags atvinnurekenda.[/caption]
Í þætti dagsins ræðir Ólafur meðal annars vítt og breitt um það verndarkerfi utan um innlendan landbúnað og matvælaframleiðslu sem Íslendingar búa við. Hann segir að röksemdarfærslan um að kerfið tryggi fæðuöryggi sé hol að innan og mjög ósannfærandi. „Hvaða aðstæður geta komið upp þar sem það verður svo óskaplega mikilvægt að við séum sjálfum okkur nóg um mat? Drepsótt, styrjöld eða náttúruhamfarir eða eitthvað álíka. Þá blasir það við að það verður ekki heldur hægt að flytja inn fóðrið, eða áburðnin, eða vélarnar eða olíuna sem innlendir framleiðendur þurfa til að búa til mat.“
Ólafur fer einnig yfir munin á Félagi atvinnurekenda og öðrum samtökum í atvinnulífinu, gjaldeyrishöft og áhrif þeirra á íslenskt atvinnulíf, hversu galin lög um áfengisauglýsingar eru, fjölmiðla og ýmislegt annað.