Lemúrinn er fastur á kaldri eyðieyju í Suður-Atlantshafi. Hann hefur ekkert fyrir stafni nema að glugga í skrýtnar sögur um furðulegar smáeyjar.
Hann kynnir sér ráðgátu um yfirgefinn árabát sem fannst á Bouvet-eyju, norskri nýlendu í Suður-Atlantshafi, afskekktustu eyju heims. Hún bar eitt sinn hið fremur ógeðfellda nafn Umskurðarhöfði.
Lemúrinn kynnir sér líka stórfurðulegt landnám á eyjunni Tristan da Cunha, sem er einangraðasta byggða eyja heims. Þar bjuggu í byrjun nítjándu aldar nokkrir karlar en aðeins ein kona og því var hvalveiðiskipstjóri beðinn um að koma með konur næst þegar hann kæmi með vistir.