Fyrsti þáttur í hlaðvarpi Lestrarklefans fjallar um jólabækurnar 2018. Ógrynni af gæðabókum var í flóðinu; skáldsögur, fræðibækur og ekki síst barnabækur. Áhöfn Lestrarklefans ræðir við tvo rithöfunda og er með almennar hugleiðingar um jólabækurnar.
Rætt er við Benný Sif Ísleifsdóttur rithöfund og þjóðfræðing, sem sendi frá sér tvær bækur í fyrra; Grímu og Jólasveinarannsóknina, eina skáldsögu og eina barnabók. Anna Margrét Björnsdóttir, úr áhöfn Lestrarklefans, spjallar við Benný Sif um uppruna jólabókaflóðsins og hvernig það er að vera rithöfundur eftir hasar desembermánaðar.
Seinni viðmælandi þáttarins er nýkrýndur handhafi íslensku bókmenntaverðlaunanna í flokki fagurbókmennta, Hallgrímur Helgason. Katrín Lilja Jónsdóttir, einnig úr áhöfn Lestrarklefans, ræddi við Hallgrím um Sextíu kíló af sólskini, ritstörfin og lestur.
Lesari er Erna Agnes Sigurgeirsdóttir.