Einar Bárðarson, einn framkvæmdastjóra ferðaþjónustufyrirtækisins Reykjavík Excursions, segir ferðaþjónustuiðnaðinn hér á landi þurfa fleiri alvöru rannsóknir á því hvernig fólk ferðast til Íslands. Gott væri að vita hver tíðni endurkomugesta sé til Íslands, ekki síst til að sjá hversu vel markaðsstarf í ferðaþjónustu gengur. Einar er gestur Markaðsvarpsins hjá Bjarka Pétursyni og Trausta Haraldssyni í Hlaðvarpi Kjarnans.
„Það væri gaman að sjá tíðni endurkomugesta,“ segir Einar. „Við vorum svona „einnar komu“-áfangastaður en við erum að upplifa það meira og meira að fá endurkomugesti. Það væri mjög áhugavert að sjá Stjórnstöðina [Stjórnstöð ferðamála] eða Ferðamálastofu vinna saman… við höfum ekki „tímt“ að kaupa alvöru rannsóknir í þessum efnum.“
Þeir ræða meðal annars hvernig ferðaþjónustumarkaðurinn hefur verið að þróast, hvernig hann muni vera í náinni framtíð, hvað gengur vel og hvað megi betur fara og hvort að Ísland geti viðhaldið þjónustustiginu á ferðamarkaðinum.
Einar segir eina helstu ógnina við ferðaþjónustuna hér á landi vera gengisþróun. Styrking íslensku krónunnar gagnvart öðrum gjaldmiðlum gæti haft verulega fráhrindandi áhrif á ferðamenn sem hugsa sér að koma til Íslands.