Hverjir eru það sem vinna á bakvið tjöldin, þeir sem sitja í bláu ljósi skjáanna langt fram á nótt til að ná frestinum fyrir hrikalega mikilvæga verkefni ómissandi kúnnans? Eða þeir sem ákváðu að fara sínar eigin leiðir, nýta þekkingu sína í eitthvað allt annað og meira? Hvaðan kemur þetta fólk? Hvaða sögu hefur það að segja og hvernig komst það þangað sem það er í dag og hvernig sér það framtíðina fyrir sér?
Punktur Punktur er hlaðvarp um og fyrir hönnuði og aðra sem vinna í skapandi greinum sem leitast við að svara þessum spurning, veita innblástur og innsýn í líf hönnuða á íslandi. Elín María Halldórsdóttir, grafískur hönnuður, spjallar við einstaklinga sem hafa áhugaverðar sögur að segja um hvernig þau byrjuðu að fást við það sem þau gera í dag. Hvert spjall er einstaklingsmiðað en markmið hlaðvarpsins er að hrekja þá rótgrónu hugsun að hönnuðir og aðrir skapandi einstaklingar séu allir listaháskólagengnir og öðrum leiðum lyft upp og gert hærra undir höfði. Einnig verður lögð áhersla á að ræða hverjir og hvað hefur haft áhrif á vinnu þeirra, hvaðan innblástur þeirra kemur og hvers vegna starfsvettvangur þess varð fyrir valinu. Rætt verður um þá grein sem viðmælandi vinnur í og framtíð og áskoranir innan hennar.
Í fyrsta þættinum spjalla ég við ofurkonuna, bókmenntafræðinginn og hönnuðinn Tótu, sem starfar nú sem vörumerkjastýra ON. Hún var líka ein af stofnendum Grapíku, félags kvenna í grafískri hönnun á Íslandi. Þórhildur er reynslubolti í bransanum og kann að nýta þekkingu úr hinum ýmsu áttum til góðs í daglegu starfi sem hönnuður.