Ólöf Gerður Sigfúsdóttir fæddist 13. desember 1975 á Sauðárkróki. Hún lauk BA prófi í mannfræði frá Háskóla Íslands árið 2000 og MA í sömu grein árið 2002 frá Chicago háskóla og lauk síðan doktorsprófi í safnafræði frá Háskóla Íslands í október 2022.
Í þessum þætti er rætt um doktorsritgerð Ólafar Gerðar, sem og mannfræðirannsóknir hennar. Doktorsritgerð Ólafar Gerðar beinir sjónum að rannsóknahlutverki opinberra safna, en rannsóknastarf safna er gjarnan hulið safngestum og fellur oft í skuggann af öðrum starfsþáttum eins og söfnun, skráningu, varðveislu, miðlun og fræðslu. Þannig miðar verkefnið að því að draga fram rannsóknir sem einn af grunnþáttum faglegs safnastarfs og skapa gagnrýna umræðu um hvað felst í því að stunda rannsóknir á safni. Mörg söfn, hvort sem er hér á landi eða erlendis, segjast ófær um að sinna þeim grunnþætti sem rannsóknir eru vegna skorts á starfsmönnum, tíma og fjármagni, meðan önnur líta á rannsóknir sem innbyggðan hluta af öllu því daglega starfi sem fer fram á söfnum.
Þessi tvö andstæðu sjónarmið skapa andrúmsloft óvissu kringum rannsóknastarf safna, sem aftur á móti leiðir til óræðni um hvað telst til rannsókna á söfnum og hvað ekki. Doktorsritgerðin varpar ljósi á þessa óræðni með því að kanna hvernig þekking er sköpuð og henni miðlað á söfnum.
Ritgerðin er byggð á fjórum ritrýndum tímaritsgreinum sem samanlagt móta mynd af safnarannsóknum gegnum fjögur sjónarhorn: hið safnafræðilega, hið stofnanalega, hið sýningarstjórnunarlega og hið þekkingarfræðilega.
Undanfarin ár hefur Ólöf Gerður verið virk í opinberri umræðu um myndlist, söfn og rannsóknarpólitík hér á landi og tekið þátt margvíslegu starfi sem tengist söfnum og safnarannsóknum og tengslum þeirra við listir.