Í þessum þætti er rætt við mannfræðinginn Svein Eggertsson um rannsókn hans meðal Kwermin-fólksins á Nýju-Gíneu, rannsóknir á Páskaeyjum og fleira. Meginrannsóknaráherslur Sveins hafa snúið að efnismenningu, mannfræði skynjunar og lista út frá sjónarhóli fyrirbærafræði, sem og samskiptum manna og dýra. Rannsókn Sveins meðal Kwermin fjallaði einkum um þekkingu og skinn, um húð sem þekkingarbera og tjáningu menningarlegra þátta. Sveinn hefur einnig skoðað veggjalist (graffití) út frá mannfræði lista.
Sveinn Eggertsson fæddist í Reykjavík 1954. Hann lauk BA námi í mannfræði frá HÍ 1990, MA í mannfræði frá Háskólanum í Manchester og doktorsnámi í mannfræði frá sama skóla 1997 eftir vettvangsrannsókn í Nýju-Gíneu.