Í þessum þætti er rætt við Eyrúnu Eyþórsdóttur mannfræðing og lögreglufræðing um rannsóknir hennar og störf og ýmis mál sem komið hafa upp nýlega á Íslandi þar sem rasísk ummæli og atferli hefur verið ofarlega á baugi upp á síðkastið og vakið mikla opinbera athygli og gremju. Tengt þessu hafa meginrannsóknaráherslur Eyrúnar verið hlutverk löggæslu í fjölbreyttu samfélagi og hvernig lögreglan þarf að laga sig að síbreytilegum aðstæðum í íslensku samfélagi. Þetta tengist m.a. rannsóknum á hatursorðræðu og hatursglæpum, á Íslandi sem og í nágrannalöndunum, og uppgangi öfga hægri afla sem ala á útlendingahatri og rasisma.
Rannsóknir og störf (kennsla) Eyrúnar hafa m.a. snúið að því hvernig þessir þættir hafa áhrif á störf lögreglunnar og hvort hún sé að bregðast við þessum þáttum á viðeigandi hátt. Hluti af þessum viðbrögðum er það sem kallast á ensku „racial profiling“, eða „kynþáttamiðuð greining“, þar sem kynþætt einkenni eru áberandi í því hvernig fólk er grunað um glæpi út frá ákveðnum staðalmyndum, eins og húðlit, en umræða um þetta hefur verið áberandi á Íslandi síðustu vikurnar. Kennsla í lögreglufræðum er og hefur verið mikilvægur hluti af starfi og rannsóknum Eyrúnar, þar sem áherslan er á að auka vitund, þekkingu og færni lögreglunnar þegar kemur að samskiptum við ólíka minnihlutahópa í íslensku samfélagi og hafa námskeið hennar við Háskólann á Akureyri einkum snúist um þær áherslur.
Eyrún Eyþórsdóttir fæddist í Reykjavík 1973. Hún lauk BA prófi í mannfræði við HÍ 2003, MA prófi í félagsfræði við HÍ 2008 og doktorsnámi við HÍ í mannfræði 2022. Auk þess hóf hún nám í Lögregluskólanum árið 2003 og starfaði sem lögreglukona frá 2003 til 2018. Eyrún starfar nú sem lektor í lögreglufræðum við Háskólann á Akureyri.