Eyrún Ólöf Sigurðardóttir er fædd 1982 í Reykjavík og alin upp í Hveragerði. Hún starfaði í barnastarfi Reykjavíkurborgar í nokkur ár (og þannig lenti hún í tómstundafræðinni) og hefur líka unnið mikið með öldruðum, bæði við aðhlynningu og sem tómstundafræðingur. Eyrún kom stuttlega við í unglingastarfi hjá borginni og hefur verið í grasrótarverkefninu Stelpur rokka! frá 2015 (hún skrifaði einmitt BA um kynjaskipt frítímastarf). Svo hefur hún verið talsvert á flakki um heiminn, var í fjarnámi fyrst þegar hún byrjaði í mannfræðinni og skrifaði verkefni á bókasöfnum og kaffihúsum hér og þar. Einnig hefur Eyrún unnið með No Border samtökunum fyrir réttindum flóttafólks og stundað annan aktívisma. Hún er mikið náttúrubarn og komu fjallaskálarnir inn í líf hennar sem sumarstarf þegar hún var í mannfræðinni, eitt það besta, segir hún, sem hefur komið fyrir hana er að fá að dvelja á fjöllum í langan tíma í senn. Eyrún er aðjúnkt í tómstunda- og félagsmálafræði við HÍ. Megin áherslur í fræðum Eyrúnar eru: orðræður, staðalmyndir, fólksflutningar, vald og andóf, aktívismi og anarkismi, tómstunda- og félagsmálafræði.
Í þessu samtali er fjallað um orðræðu tengda fólki á flótta, m.a. útfrá starfi íslensku Landhelgisgæslunnar við landamæragæslu í Miðjarðarhafinu, sem einnig fól í sér aðkomu að björgun flóttafólks í sjávarháska, en Eyrún skrifaði MA ritgerð sína um það mál. Rætt er um hervæðingu öryggismála og öryggisvæðingu mannúðarmála og útvistun verkefna því tengdu til einkaaðila, og fleira í þeim dúr, þar sem hugmyndir um þjóðernishyggju, yfirburðarhyggju og rasisma koma við sögu.