Í þessum þætti er rætt við mannfræðinginn Katrínu Önnu Lund um að ganga, gönguleiðir og göngutúra, útfrá mannfræðilegu og fyrirbærafræðilegu sjónarhorni. Pælt er í hreyfanleika og frásögnum í samhengi við landslag, um „fótaför“ manna um landið og leiðina. Skil náttúru og menningar verða óljós í þessum pælingum, þar sem efnisleg náttúra skarast við félagslega hegðun manna og menningarlegar hugmyndir. Í takt við umræðuefnið er farið út um víðan völl í þessu spjalli.
Katrín Anna Lund er fædd 1964 í Reykjavík. Hún lauk BA prófi 1991 í mannfræði við HÍ, MA í mannfræði 1992 frá Háskólanum í Manchester og doktorsprófi í mannfræði 1998 frá sama skóla. Katrín Anna hefur stundað rannsóknir tengdum ferðamennsku og ferðamenningu með fyrirbærafræðilegar nálganir að leiðarljósi. Hún hefur, í samstarfi við Gunnar Þór Jóhannesson (viðtal við hann í 5. þætti þessa hlaðvarps), rannsakað ferðamál á Íslandi, mótun leiða og áfangastaða fyrir ferðamenn.
Raddir margbreytileikans er mannfræðihlaðvarp þar sem rætt verður við íslenska mannfræðinga um það sem þeir eru að rannsaka. Einnig verður rætt við erlenda fræðimenn þegar færi gefst. Umsjónarfólk hlaðvarpsins eru Hólmfríður María Ragnhildardóttir, Kristján Þór Sigurðsson og Sandra Smáradóttir.