Bókstafurinn Á er næstur í Rófinu, og eru það álar og átraskanir sem eru þemu þáttarins að þessu sinni. Stefán fræðir okkur um álinn, sem er merkilegri en margir halda, og að auki eru álarnir við Íslands strendur með sérstöðu sem gerir þá mögulega að merkilegustu álum í heimi. Nína skoðar síðan átraskanir frá heldur óvenjulegum vinkli, og veltir upp röskuðum átmynstrum sem eru minna þekkt meðal almennings. Stútfullur þáttur af fróðleik með smá vitleysu í bland.
Stefán Pálsson og Nína Richter taka fyrir óvenjuleg málefni í óvenjulegum þætti sem er að vissu leyti óður til sjónvarpsþáttanna bresku QI, sem Stephen Fry gerði fræga. Hver þáttur hefur sinn bókstaf, sem er upphafsstafur þeirra málefna sem rædd eru í þættinum. Hvor þáttarstjórnandinn velur sér eitt málefni til að fjalla um en síðan tengjast málefnin einnig á óvæntan hátt. Þátturinn er í senn fróðlegur og fáránlegur, og geta hlutföllin þar á milli sveiflast til.
Nína og Stefán eru bæði á Twitter. Nína er @kisumamma og Stefán er @stebbip. Þátturinn hefur einni fengið sinn eigin reikning: @stafrofid. Ef fólk vill hafa samband, kvart yfir þáttastjórnendum eða koma með ábendingar um sniðug umfjöllunarefni þá er Facebook-síða þáttarins hér á facebook.com/rofidhladvarp.