Fáir staðir hafa jafn skemmtilega, heillandi og dramatíska sögu eins og Japan. Það er í það minnsta skoðun Snæbjörns Brynjarssonar, rithöfundar, sem lengi hefur verið heillaður af landinu, en hann lærði japönsku við Háskóla Íslands og Waseda í Tokyo.
Í þessu hlaðvarpi verður kafað ofan í sögu landsins – og uppruni goðsagna og menningarlegra fyrirbrigða rannsakaður. Hvaðan komu Japanir? Var landið alltaf lokað þar til á 19. öld? Var japanska efnahagsundrið á 20. öld afleiðing einstakrar menningar Japans eða sögulegt slys? Og hvernig var súshí fundið upp? Þessum og fleiri spurningum verður reynt að svara í hlaðvarpsseríu sem spannar yfir tíu þúsund ár.
Í þessum fyrsta þætti er því svarað hvernig japanski eyjaklasinn með sínum 6000 eyjum hafi orðið til. Það eru til a.m.k. tvær kenningar – og í þessum þætti heyrum við þá vísindalegu ásamt þeirri trúarlegu.
Teikningin er eftir átjándu aldar listamanninn Nishikawa Sukenobu sem sýnir goðin Izanagi og Izanami í þann mund að hefja sköpun heimsins.