Faðir hennar gerði ríkið gjaldþrota með trúarofsa sínum, en Abe prinsessa, sem bæði var þekkt sem Koken eða Shotoku keisaraynja eftir því á hvaða hluta valdaskeiðs hennar hún stýrði Japan, skeytti lítið um þunglamaleg lögmál búddismans í fyrstu og kaus frekar veisluhald í hinum hverfula heimi þar sem hún átti marga félaga og ótal elskhuga.
Þessi „Katrín mikla“ þeirra Japana bældi niður tvær byltingartilraunir og skipaði ráðherra sem ekki tilheyrðu hinum hefðbundnu valdaættum, og óvíst er hvort nokkur kona í sögu Japans hafi haft jafnmikil völd og áhrif og hún.
Meðfylgjandi mynd sýnir leikkonuna Ishihara Satomi í hlutverki sínu sem keisaraynjan á yngri árum í sjónvarpsdrama sem NHK, (japanska ríkisútvarpið) framleiddi árið 2010 í tilefni 1300 ára afmælis borgarinnar Nara.
Umsjónarmaður hlaðvarpsins Saga Japans er Snæbjörn Brynjarsson.