Þrátt fyrir ítrekaðar tilraunir til að skapa varanlega sátt milli hins svokallaða atvinnulífs annars vegar og launþega hins vegar, endar alltaf með því að það sýður upp úr. Og þar erum við einmitt stödd núna: á suðupunkti. Út frá félagsfræðilegu sjónarhorni þá er það ekkert endilega neitt sérlega slæmt eða óæskilegt. Ýmsir kenningasmiðir hafa fært rök fyrir því að átök af þessu tagi séu ekki bara eðlileg, heldur í raun nauðsynleg fyrir framþróun þjóðfélaga. Sem dæmi má nefna að stéttaátök fyrri alda hafi komið á miklum og víðtækum umbótum. Engu að síður virðast allir málsaðilar vera á nálum yfir núverandi stöðu mála.
Gestur Kjartans að þessu sinni er Drífa Snædal, forseti ASÍ. Þau ræða samfélagslegt hlutverk verkalýðshreyfingarinnar, stöðu hennar innan pólitískra breytinga seinasta aldarfjórðunginn og hvers vegna verkalýðsfélögin þurfi að þróa „íslenska jafnaðarmódelið“ í baráttu sinni fyrir bættum kjörum almennings.