Í umræðum um kjör fólks í yfirstandandi kjarabaráttu bera húsnæðismál oft á góma. Í því samhengi hefur m.a. verið minnst á erfiða stöðu fólks á leigumarkaði, kjarabætur sem tapast í hærri húsaleigu og óboðlegar aðstæður erlendra verkamanna sem og innlends láglaunafólks.
Jón Rúnar Sveinsson félagsfræðingur er gestur vikunnar í hlaðvarpi og spjallar við Stefán Hrafn Jónsson prófessor í félagsfræði um húsnæðismál, m.a. um breytingar á íslenska húsnæðismarkaðnum þar sem stór hluti fólks þarf nú að leigja íbúðarhúsnæði þrátt fyrir að séreignastefna hafi verið ríkjandi um langt árabil.
Eftir doktorsnám starfaði Jón Rúnar Sveinsson m.a. hjá Húsnæðisstofnun ríkisins og hjá Íbúðalánasjóði. Hann var sérfræðingur hjá Borgarfræðasetur Háskóla Íslands og Reykjavíkurborgar og síðar hjá Rannsóknamiðstöð Háskólans á Bifröst auk þess að starfa sem sjálfstætt starfandi fræðimaður í Reykjavíkurakademíunni. Með störfum sínum hefur Jón Rúnar áunnið sér sess sem einn helsti sérfræðingur landsins um húsnæðismál. Hann hefur í störfum sínum m.a. fjallað um þróun húsnæðismála og um borgarfræði.