Í þessu síðasta hlaðvarpi fyrir jólafrí erum við enn í Þýskalandi en dvöl Sigrúnar þar lauk í Norður-Þýskalandi. Þar hitti hún Patrick Sachweh, prófessor í félagsfræði við Háskólann í Bremen. Hans helsta viðfangsefni í rannsóknum er ójöfnuður. Hann hefur bæði skoðað ójöfnuð innan Þýsklands og á milli landa með megindlegum aðferðum og notað rýnihópa til að skilja upplifanir almennings á ójöfnuði. Hann beinir sjónum að mismunandi hópum í samfélaginu, t.d. þeim efnameiri, millistéttarfólki eða öryrkjum til að skilja hvernig ólíkir hópar upplifa, réttlæta og skilja ójöfnuð. Þessar rannsóknir voru hluti af verkefni hans “Skilningur almennings á ójöfnuði og réttlæti í Þýskalandi” sem var styrkt af þýska rannsóknarsjóðnum (DFG). Þau Sigrún ræða um ójöfnuð innan og á milli samfélaga, bæði hvað við vitum um hann en einnig hvað er hægt að gera til að draga úr ójöfnuði og af hverju það er mikilvægt.
Meira handa þér frá Kjarnanum