Það er um fátt annað talað á Íslandi, eða rauninni í heiminum, heldur en Covid-19. Hin líffræðilega ógn er augljós, heilsu og lífi fólks er ógnað, en heimsfaraldrar eins og þessi hafa einnig djúpar samfélagslegar, stjórnmálalegar og efnahagslegar afleiðingar.
Þar sem fátt annað er í boði á þessum fordæmalausu tímum notar Sigrún tæknina í hlaðvarpi vikunnar og spjallar við Alexandre White, lektor í félagsfræði og sögu læknavísindanna við John Hopkins háskólann í Baltimore.
Hann lauk doktorsnámi frá Boston háskólanum árið 2018 og svo skemmtilega vill til að Sigrún sat einmitt í doktorsnefnd hans. Rannsóknir hans snúa að heimsfaröldrum en hann vinnur núna að bók sem byggir á doktorsritgerð hans sem að bar heitið „Epidemic Orientalism: Social Construction and the Global Management of Infectious Disease” en þar beinir hann sjónum að því hvernig skilgreiningar og viðbrögð við heimsfaröldrum eru félagslega sköpuð og endurspegla oft hina sögulegu valdastöðu vestrænna samfélaga gagnvart öðrum löndum.
Þau Sigrún ræða stöðuna í Bandaríkjunum og setja þá vá sem að nú steðjar að heiminum í félagsfræðilegt samhengi.