Í þessu síðasta hlaðvarpi fyrir sumarfrí ræðir Sigrún við Ara Klæng Jónsson en hann lauk nýlega doktorsprófi í félagsfræði, með áherslu á lýðfræði frá Háskólanum í Stokkhólmi. Í ritgerð sinni skoðar hann frjósemi og fjölskylduhegðun Íslendinga og kemst meðal annars að því að á Íslandi er örlítil, en marktæk, dætrahygli, en það er kannski ólíkt því sem þekkist í sumum samfélögum þar sem frekar er óskað eftir að eignast syni.
Ari útskýrir fyrir Sigrúnu hvernig lýðfræðin getur svarað spurningum eins og því hvort foreldar almennt hafi einhverjar sérstakar óskir um kyn, sem og hvernig frjósemi á Íslandi hefur þróast undanfarna áratugi og hvernig hún er í samanburði við hin Norðurlöndin. Þau ræða einnig gagnsemi lýðfræðinnar til að hjálpa okkur að skilja samfélagið betur og fyrir stefnumótun, en segja má að skilningar á mannfjöldabreytingum séu grundvallarforsenda fyrir því að vita hvernig kerfi við þurfum í framtíðinni.