Myndband sem sýnir morð lögreglumannsins, Derek Chauvin, á George Floyd 25. maí síðastliðinn í Minneapolis-borg í Bandaríkjunum hefur leyst úr læðingi mikla samfélagslega ólgu. Umrótið snýst hinsvegar ekki einungis um þetta hrottalega voðaverk heldur er undirrótin aldalöng, kerfislæg mismunun gagnvart einstaklingum af afrískum uppruna og öðrum minnihlutahópum. Mótmælin sem spruttu upp í kjölfar þess að umrætt myndband fór á netið hafa breiðst út víða um heim og hafa neytt fólk til þess að horfast í augu við kynþáttafordóma og -mismunun í þeirra eigin samfélagi.
Til þess að hjálpa okkur að skilja betur kynþáttahyggju (rasisma) og hvernig hann gegnumsýrir bandarískt samfélag fengum við James M. Thomas, dósent í félagsfræði við Mississippi-háskóla, í hlaðvarpið. James hefur rannsakað margt er snýr að kynþáttahyggju, -fordómum og -mismunun. Þrátt fyrir ungan aldur hefur hann gefið út margar fræðigreinar og fjórar bækur, þar á meðal bókina Are Racists Crazy? How Prejudice, Racism, and Antisemitism Became Markers of Insanity ásamt sagnfræðingnum, Sander L. Gilman. James svarar spurningunni sem varpar er fram í bókartitlinum og greinir ýmsar birtingarmyndir rasisma í þessu hlaðvarpi þar sem kennir ýmissa grasa.