Jóhann Páll Árnason hefur lengi verið einn fremsti félagsfræðingur Íslendinga, en hann er nú Prófessor Emeritus við La Trobe háskóla í Melbourne í Ástralíu, þar sem hann kenndi frá árinu 1975 til 2003. Þar á undan kenndi Jóhann við Heidelberg háskóla og Bielefeld háskóla í Þýskalandi og seinna við Karls-háskólann í Prag frá 2007 til 2014. Þá hefur hann jafnframt verið gestaprófessor við ýmsa háskóla og rannsóknastofnanir í Frakklandi, Svíþjóð og Þýskalandi.
Jóhann er afkastamikill fræðimaður en eftir hann liggja fjölmargar fræðigreinar og bækur. Hann er ennfremur enn mjög virkur í fræðunum þrátt fyrir að vera kominn á níræðisaldur. Rannsóknaráherslur Jóhanns liggja víða en hverfast um aðallega kenningarlega félagsfræði og sögulega félagsfræði, með sérstaka áherslu á samanburð milli ólíkra menningarheima og þjóðfélagsbreytingar.
Guðmundur Oddsson, dósent í félagsfræði við Háskólann á Akureyri, ræddi við Jóhann um hans langa og merka feril.