Listamaðurinn og fyrrverandi borgarstjóri Reykjavíkur, Jón Gnarr, segir í Stóru málunum, nýjum þjóðmálaþætti í Hlaðvarpi Kjarnans, að Samfylkingin þurfi eitthvað meira en nafnbreytingu. Þannig sé það nauðsynlegt fyrir flokkinn að fá sér nokkurs konar lukkudýr í staðinn fyrir blóðdropann á jakkafötunum – og þá sé hestur í raun rökréttasta niðurstaðan. Sjálfur skipti Jón um nafn eins og frægt er orðið og þekkir því á eigin skinni hvernig það er að ganga í gegnum slíkar breytingar.
Þá er rætt við blaðamanninn Paul Fontaine um þá nýjung í íslensku samfélagi að sérsveitarmenn gangi um vopnaðir. Sjálfur hefur Paul upplifað skotárás þegar hann bjó í einni hættulegustu borg Bandaríkjanna á tíunda áratugnum. Fyrsta upplifun hans af skotvopni var áður en hann varð tíu ára gamall, en það var þegar lögreglumaður óttaðist að hann væri ekki með leikfangabyssu, heldur raunverulegt vopn.
Stóru málin er nýr þjóðmálaþáttur í umsjón Vals Grettissonar og Bjartmars Odds Þeyrs Alexanderssonar, en í þættinum verður farið yfir helstu mál líðandi stundar með léttum og nýstárlegum hætti.