Það var farið víða í sérstökum kosningaþætti Stóru málanna. Fyrir utan óvænt símtal sem leiddu af sér tilgangslausar samræður um Blade runner þá var rætt meðal annars við sérstakan fréttaritara Stóru málanna í Norðausturkjördæmi, Svein Arnarson. Hann upplýsti meðal annars um athyglisverðustu kosningaauglýsinguna á svæðinu, en svo virðist sem bóndi hafi slegið risastórt M í túnið sitt sem er vel sjáanlegt fyrir flugfarþega sem koma til Akureyrar. Verst er þó að auglýsingin sést aðeins vinstra megin fyrir þá sem eru í aðflugi, en hægra megin fyrir þá sem eru að yfirgefa svæðið. Honum til varnar, þá hefði engin séð merkið ef það hefði verið fyrir miðju.
Þá mættu þau Sigurjón M. Egilsson, fjölmiðlamaður til margra ára og fyrrverandi stjórnandi stjórnmálaþáttarins Sprengisands, sem og Karen Kjartansdóttir, fyrrverandi blaðamaður og upplýsingafulltrúi. Margt áhugavert kom fram í spjallinu, meðal annars að Sigurjón ætlar að kjósa til vinstri og segir stjórnmálaflokka reyna að koma sér undan því að ræða eiginleg stjórnmál með mælskubrögðum. Þáttastjórnendur réðu að sjálfsögðu ekki við neitt í þættinum og umræðurnar fóru út um allt sem endaði á einhverskonar einræðu Bjartmars um kjósendahegðun almennings.