Davíð Þór Jónsson, sóknarprestur í Lauganeskirkju gagnrýnir stöðu biskups sem er ekki eingöngu andlegur leiðtogi þjóðkirkjunnar á íslandi, heldur einnig framkvæmdastjóri hennar eftir að kirkjumálaráðuneytið var lagt niður. Þetta kom fram í viðtali við Davíð Þór í hlaðvarpi Kjarnans, Stóru Málin.
„Og þannig eru málefni ráðherra komin á hendur biskups, en fyrsta verk Lúthers var að taka eignir biskupa og afhenda furstanum. Og allt í einu sitjum við uppi með kaþólskasta og valdamesta biskup frá siðaskiptum sem er í senn hugmyndafræðingur, upplýsingafulltrúi og framkvæmdastjóri kirkjunnar.“
Davíð bætir við að það ættu að vera eldveggir þarna á milli. „Þá væri kannski heppilegast ef það yrði ráðinn framkvæmdastjóri og biskup sinnti sínu hlutverki og þarna væru skýr skil á milli,“ útskýrði hann.
Enn fremur kom fram að Davíð Þór er stuðningsmaður þess að ríki og kirkja verði aðskilin, en þó að því gefnu að ríkið geri einhverskonar samning við kirkjunnar vegna gríðarlegra eigna sem kirkjan átti þegar hún sameinaðist ríkinu á sextándu öld. Davíð segir þann samning þó þann alversta sem hefði verið hægt að gera, í það minnsta af hálfu kirkjunnar.
„Kirkjan yrði miklu sterkari, miklu sterkari, “ svaraði hann aðspurður hvort kirkjan myndi ekki í raun eflast við það að vera sjálfstæð.
„Og þá losnar maður líka við þetta ríkiskirkjubull,“ sagði Davíð og hélt áfram: „Lauganeskirkja er til að mynda að verða 70 ára eftir tvö ár og okkur langar til þess að lappa upp á hana af því tilefni. Staðan nú er sú að það þarf að breiða plast yfir orgelið svo það rigni ekki á það í ákveðinni vindátt. Þessu væri hægt að redda fyrir fimmtán milljónir, en er samt okkur algjörlega ofviða miðað við tekjur okkar. Við þyrftum í raun að leggja niður allt kirkjustarf á meðan ef þetta ætti að ganga upp.“
Spurður út þann mikla fjölda sem hefur sagt sig úr kirkjunni frá árinu 2010, en þeir telja um 15 þúsund í dag, sagði Davíð Þór að kirkjan hefði sannarlega farið í gefnum erfið málefni, og þar bæri biskupsmálið svokallaða kannski hæst. En það afhjúpaði úrræðaleysi þjóðkirkjunnar þegar Ólafur Skúlason biskup braut kynferðislega á nokkrum konum. Davíð segir að meðhöndlun kirkjunnar á málinu hafi stappað nærri yfirhylmingu.
Hann bendir þó að kirkjan hafi tekið rækilega til á þessu sviði og úr varð fagráð sem Davíð Þór segir fagaðila líta til, þá sérstaklega eftir að umræðan tengdri #Meetoo kom upp.
„Og það er kannski áhugavert að sjá að kirkjan var ekki ein á báti varðandi þessi mál, eins og í ljós hefur komið í kringum #meetoo umræðuna,“ segir Davíð sem trúir því að verklagsferlar séu orðnir mun betri. En svo virðist sem fólk hafi ekki snúið aftur í kirkjuna sem sagði sig úr henni, þar sem fræðsla um þessi úrræði og umræða henni tengdri, væri ekki mikil.