Líf Magneudóttir, oddviti Vinstri grænna í borgarstjórn, kom í viðtal til Stóru málanna. Þar kynnti hún athyglisverð hugtök fyrir umsjónarmönnunum, svo sem Lífræði sem hljómar samt sem áður ekki við fasískar hugmyndir Bjartmars Alexanderssonar sem vill helst upplýst einræði.
Líf upplýsti hinsvegar í þættinum að henni hugnaðist ekki samstarf við Sjálfstæðisflokkinn í borgarstjórn eins og Eyþór Arnalds, oddviti Sjálfstæðisflokksins hefur talað. Þá treysti hún sér ekki til þess að leggja mat á hvaða mál væru helst á oddinum fyrir næstu sveitarstjórnarkosningar sem verða í vor, en vonaðist þó til þess að þar væri þó ekki einhverskonar tveggja turna tal milli Samfylkingar og Sjálfstæðisflokksins.
Að lokum kynntu Stóru málin nýtt horn til sögunnar, eða skeptíska hornið, en þar var farið yfir geimskot Elon Musk og hvernig það kippti hugsanlega fótunum undan hundruð einstaklinga sem standa í þeirri trú að jörðin sé flöt.