Það fagfólk sem hefur vanið sig á að vinna sína vinnu á Apple-tölvur mun í auknum mæli skipta um umhverfi og leita á náðir Windows-stýrikerfisins ef tæknirisinn í Kaliforníu uppfærir ekki MacBook Pro og Mac Pro-vélarnar fyrir þessa notendur.
Fagfólk gerir oftar en ekki ríkari kröfu um að hægt sé að skipta út og bæta við vélbúnaði, hvort sem hann er innbyggður eða liggur fyrir utan tölvuna sjálfa. Undanfarin ár hefur Apple hannað tölvur og tæki sín með einfaldari vinnslu í huga, færri tengimöguleikum og færri möguleikum á viðbótum eða uppfærslum á vélbúnaði. Það hentar Pro-notendum ekki og því er hætt við að þetta fólk feli öðrum framleiðendum traust sitt.
Í Tæknivarpinu er spjallað um stöðu Apple og afstöðu fyrirtækisins til fagfólks. Gestir þáttarins eru Pétur Jónsson, pródúsent Íslands, tónlistarmaður og hluthafi í Apple, og Hörður Ágústsson, eigandi Maclands. Umsjónarmenn eru Gunnlaugur Reynir Sverrisson og Atli Stefán Yngvason.
Nýlega kynnti Apple uppfærslu á MacBook Pro-tölvunni sinni þar sem þessi þróun virðist verða að vandamáli. Hámarks minni þessara nýju tölva er 16 mb og þar eru engin innbyggð tengi á borð við HDMI.
Nýjasta Mac Pro-vélin sem stenst ítrustu kröfur fagfólks og er í sölu hér á landi er þriggja ára gömul týpa. Í dag kostar sú vél hátt í 600 þúsund krónur, ef tekið er venjulegt dæmi, og ef hún er uppfærð eins mikið og hægt er má búast við að verðmiðinn verði nær tveimur milljónum króna.