Tölvurisinn Apple er á góðri leið með að þéna eina billjón Bandaríkjadala vegna sölu á snjalltækjum sínum. Um þessar mundir eru tíu ár síðan Steve Jobs, þáverandi forstjóri Apple, kynnti fyrsta iPhone-símann.
Síminn varð fljótt viðmiðunartól í heimi snjalltækja og þótti mikil framför þegar hann kom á markað árið 2007. Á þeim tíu árum sem liðin eru hafa ellefu kynslóðir iPhone-síma komið á markað. Síminn hefur selst í meira en 1,2 milljörðum eintaka.
Tæknivarpið fjallar um tíu ár af iPhone í þætti dagsins og fórnarlamb snjallsímanna sem er Nokia. Nokia var að senda frá sér nýjan síma. Umsjónarmenn þáttarins eru Gunnlaugur Reynir Sverrisson, Andri Valur Ívarsson og Sverrir Björgvinsson.