Nýjasta leikjatölvan frá Nintendo er aðalatriðið í Tæknivarpinu þessa vikuna. Nintento Switch kom á markað um heim allan 3. mars síðastliðinn. Um er að ræða leikjatölvu í svipuðum stærðarflokki og gömlu GameBoy-tölvurnar eða PSP-tölvurnar frá Sony.
Stóri munurinn er hins vegar að Nintendo Switch er í raun bara svolítið þykk spjaldtölva sem þú getur tengt sjónvarpinu þínu og notað sem fjarstýringu fyrir tölvuleikina þína.
Daníel Rósinkrans, helsti Nintendo-sérfræðingur landsins, er gestur þáttarins hjá þeim Atla Stefáni Yngvasyni, Gunnlaugi Reyni Sverrissyni og Sverri Björgvinssyni.
Auk þess að ræða Nintendo ræða þeir nýlegan gagnaleka Wikileaks á gögnum CIA. Þar kemur meðal annars fram að CIA hafi kannað möguleikann á því að nota Samsung-sjónvörp til þess að hlera heimili fólks. Þá er það „Snapchat-killerinn“ Facebook sem býður nú notendum Messenger-appsins að taka stutt snöpp af sér eða umhverfi sínu.