Það má ekki rugla saman viðurkenndum viðgerðum og því sem hægt er að redda á Ali Express. Tæknivarpið fjallar um konu sem blöskraði svo verð á viðgerð að hún tók málin í sínar hendur og gerði sjálf við iMac-tölvuna sína eftir leiðbeiningum á YouTube. Sumt er hins vegar þess eðlis að viðgerðarmenn Apple treysta sér ekki til að gera við svo vel sé.
Umsjónarmenn þáttarins eru Gunnlaugur Reynir Sverrisson, Atli Stefán Yngvason og Bjarni Ben. Þeir eru sammála um að þjónusta við Apple-notendur sé léleg á Íslandi. „Tilvera Macland er góður vitnisburður um það,“ segir Gunnlaugur Reynir. Tæknivarpið fer yfir það sem borið hefur hæst í heimi tækninnar síðustu viku.
Jony Ive, aðalhönnuður Apple, fékk „stöðuhækkun“ í vikunni og er nú kominn í þá stöðu að geta einbeitt sér eingöngu að hönnun. Tæknivarpið rýndi tilkynninguna frá Apple og telur Ive vera að minnka við sig, til þess að geta hætt bráðlega. „Auðvitað hefur þetta áhrif og mun breyta stefnu Apple í hönnun. En það verða engin straumhvörf,“ segir Gunnlaugur Reynir.