Í mesta hamaganginum í
Grikklandi ákváðu þáverandi stjórnvöld að loka gríska ríkisútvarpinu, það vakti
sterk viðbrögð víða um heim og þótti sýna lýðræðiskreppuna sem landið var í.
Það hefur nú verið opnað á nýjan leik og þótti mikilvægur áfangi fyrir lýðræðið
í Grikklandi. Enda hefur það komið fram hjá þeim fræðimönnum sem rannsakað hafa
fjölmiðla á alþjóðlegum vettvangi að almannamiðlar eru mjög mikilvægar stoðir í
lýðræðissamfélögum og hafa ennfremur mikilvægu menningarhlutverki að gegna.
Því miður hafa dæmin sýnt að sumum stjórnmálamönnum hefur hætt til að rugla saman almannaeigum og sjálfum sér og hóta jafnvel fjársvelti ef umfjöllun miðilsins er þeim ekki að skapi.
Það er dapurlegt að fyrsta verk núverandi ríkisstjórnar var að breyta lögum um Ríkisútvarpið sem þá voru nýsamþykkt vorið 2013.. Þingmenn allra flokka nema eins samþykktu þau lög en þau voru afrakstur mikillar vinnu þar sem leitast var við að skilgreina almannaþjónustuhlutverk útvarpsins.
Ætlunin var að breyta stjórn stofnunarinnar þannig að valnefnd, tilnefnd af Alþingi, samtökum listamanna og háskólasamfélaginu, gerði tillögu til ráðherra að stjórn sem fengi skýrara en um leið víðtækara hlutverk en áður. Hugmyndin var sú að fagleg sjónarmið réðu för við skipun stjórnar. Síðast en ekki síst voru lagðar til ákveðnar takmarkanir á þátttöku Ríkisútvarpsins á auglýsingamarkaði en á móti rynni útvarpsgjaldið, sem allir greiða, óskert til útvarpsins.
Þessu breytti núverandi ríkisstjórn til fyrra horfs. Útvarpsgjaldið var lækkað án nokkurra raka og teknar voru til baka að hluta þær takmarkanir sem settar voru á öflun auglýsingatekna. Ekki urðu þær ráðstafanir til að skapa sátt um Ríkisútvarpið.
Ný skýrsla starfshóps menntamálaráðherra virðist ekki heldur til þess fallin að skapa aukna sátt um faglegan og öflugan almannaþjónustumiðill.Ekki er þar leitað fyrirmynda í þeim löndum sem hingað til hafa verið fyrirmynd Íslands í stefnumótun um almannaútvarp, þ.e. Norðurlöndunum og Bretlandi, þar sem almannaútvarpið hefur haft sérstakan tekjustofn og haft mjög ríku menningarhlutverki að gegna.
Það kann þó að vera breytast ef marka má yfirlýsingar danska menningarmálaráðherrans Bertels Haarder sem hefur harðlega gagnrýnt Danska ríkisútvarpið fyrir dagskrárgerð og fréttamennsku og lítur á örar tæknibreytingar og þróun á fjölmiðlamarkaði sem rök fyrir því að DR fái ekki lengur reglubundin afnotagjöld. Verði þetta að veruleika mun það veikja danska ríkisútvarpið – sem hefur verið frumkvöðull í að koma norrænu sjónvarpsefni á heimsmælikvarða og áhrifavaldur í stórsókn norrænnar menningar á alþjóðavísu.
Það virðist sameiginlegt verkefni hægrimanna í okkar heimshluta að nýta tæknibreytingar sem afsökun fyrir því að veikja almannaþjónustumiðla í heimalöndum sínum – allt til þess að færa meiri völd og meira fjármagn í hendur einkaaðila á markaði og veikja fjölmiðil almennings. Þar með er alls ekki gert lítið úr þeim einkareknu fjölmiðlum sem starfa hér á landi sem annars staðar. Öflugt almannaútvarp hefur styrkt fjölmiðlamarkaðinn sem heild og tryggt þar ákveðna fjölbreytni.
Stjórnendur Ríkisútvarpsins hafa kynnt metnaðarfulla framtíðarsýn fyrir landsmönnum undanfarna mánuði þar sem aukin áhersla er lögð á efni fyrir börn og ungmenni, á þjónustu við hinar dreifðu byggðir og að vinna úr þeim menningarverðmætum sem stofnunin geymir. Þessi sýn hefur mælst vel fyrir. Það er óskiljanlegt að stjórnvöld kjósi ekki að fylkja sér á bak við þá framtíðarsýn, virði hug fólksins í landinu til fjölmiðilsins í sinni eigu og efli Ríkisútvarpið í stað þess að efna til ófriðar um þessa mikilvægu samfélagsstofnun.