Hugsanlega hefði ég ekki mætt í mótmælastöðu við lögreglustöðina í gær hefði ég fylgst með samfélagsmiðlum fyrr um daginn. Hugsanlega. Ég lít á það sem lögbrot að birta myndir af meintum glæpamönnum og ég kalla það hatursumræðu að skrifa um þá níð. Samt er ég fegin að ég fór vegna þess að á þeirri stundu er ég stóð í ljósaskiptunum á milli lögreglustöðvarinnar og húss Stígamóta fékk ég að finna mörg þúsund ára gamla reiði mína. Reiði sem ég hef fengið í arf frá konum og körlum fyrri kynslóða.
Ég hafði það líka á tilfinningunni að fólk kæmi ekki bara vegna þess einstaka máls sem nýlega kom upp heldur vegna þess að reiðin flæddi upp úr fleiri skálum en mínum. Við sættum okkur ekki lengur við að þeir sterkari, í hvaða skilningi orðsins sem er, geti í krafti stöðu sinnar beitt þá veikari valdi. Það er kjarni málsins og þess vegna er magnað að lifa þá tíma sem við nú lifum. Tíma þegar verið er að brjóta múra þagnar og þöggunar.
Í útvarpinu í morgun talaði lögfræðingur háðslega um þá sem ,,eiga” kynferðisafbrotaumræðuna. Auðvitað er erfitt fyrir málsvara þeirra sem átt hafa umræðuna í árþúsundir að horfa upp á valdahlutföllin raskast. Lögfræðingurinn sagðist heldur ekki vita til þess að áður hefði verið kært fyrir munnmök sem fælust í því að kona hefði getnaðarlim upp í sér örskamma stund. Án þess að ég viti nokkuð um tildrög umræddrar nauðgunarkæru vil ég benda hæstvirtum lögmanni á að alvarleiki nauðgunar er ekki mældur í tímalengd brotsins heldur meðal annars í ólíkri valdastöðu þolanda og geranda.
Sjálfsagt eru dæmi þess að nauðganir séu kærðar að tilefnislausu þó að flestir geri sér líklega grein fyrir því að ýmislegt þarflegra er hægt að gera við tímann en að eyða honum í að reyna að kæra kynferðisafbrot. Ég held að vandamálið í þessari umræðu felist í því að þeir sem ,,áttu” umræðuna og þeir sem ,,eiga” hana núna eru ekki að tala um sama hlutinn. Þeir sem áttu umræðuna tala gjarnan um tæknileg atriði eins og tímalengd á meðan þeir sem nú eiga hana tala um þá tilfinningu berskjöldunar sem fórnarlömb finna fyrir það sem eftir lifir ævinnar.
Í gær horfði ég á sólina setjast bak við lögreglustöðina í Reykjavík. Kannski reis ný sól í morgun, sól sem skín yfir upplýstri og eigandalausri umræðu um kynferðisafbrot sem færir okkur í fyllingu tímans samfélag án nauðgana.