Að eiga inni fyrir stóru orðunum

21093513079_7919eee943_b.jpg
Auglýsing

Það var forseti með stór orð sem mætti í viðtal á Bylgjunni 17. nóvember, fjórum dögum eftir hryðjuverkin í París. Forseti sem vill sýna ákveðni og raunsæi, hvetur til vitundarvakningar og varar við ógn sem steðjar að. „Vissulega þurfum við að hafa áhyggjur“ og „við erum ekki eyland í þessari veröld“ sagði hann og útskýrði að við mættum ekki „lifa í barnalegri einfeldni um það að með einhverjum aðgerðum á sviði umburðalyndis og félagslegra umbóta sé hægt að taka á þessum vanda“. Ólafur Ragnar Grímsson ætlar greinilega að vera sá forseti sem bregst við ógninni og hristir okkur úr andvaraleysinu sem hann segir hafa ríkt. Málið er að hann bæði ýkir ógnina og talar af vanþekkingu um hryðjuverkamenn. Innistæðan er engin.

Hann setur sig strax fram sem mikilvægan aðila í þessari vitundarvakningu. Útskýrir að það hafi nú verið hann sem frétti af því að Sádí-Arabía, ríki sem hefur vissulega fóstrað öfgakennt íslam og beinlínis fjármagnað hryðjuverkamenn, hafi „ákveðið að hafa afskipti af trúarbrögðum á Íslandi“. Hann vísar þá væntanlega til fundar síns við sendiherra Sádí-Arabíu sem tjáði honum í mars að hann vildi styðja byggingu mosku um rúma milljón Bandaríkjadala. Forsetinn virðist hafa frétt þetta fyrstur manna því enginn hjá Félagi íslenskra múslima hafði heyrt á þessa gjöf minnst. Í raun kom á daginn að félagið hefur engan áhuga á slíku fjármagni, það myndi „aldrei þiggja neinar gjafir frá ríkisstjórn sem virðir ekki mannréttindi fólksins síns, brýtur á þeim og styðja hryðjuverk í Mið-Austurlöndum“ (sjá hér). 

Þegar öllu er á botninn hvolft er það forseti Íslands sem bauð embættismanni Sádí-Arabíu á fund á Bessastaði, sat fyrir á mynd með honum, hrósaði landi hans og hvatti til aukinna samskipta við Ísland samkvæmt skjölum frá Wikileaks.  Ólafur Ragnar Grímsson lætur þessa tengingu á milli mosku á Íslandi og Sádí-Arabíu ekki duga og talar líka um fjármögnun „skóla þar sem öfgakennt íslam er ræktað og ungir karlmenn aldir upp í þeim viðhorfum“ í samhengi við þessa peningagjöf sem enginn tók við.

Auglýsing

Óljóst er hvernig Ólafur Ragnar Grímsson telur nauðsynlegt að taka á vandanum sem hann gefur í skyn að sé til staðar á Íslandi. Við vitum bara að hann telur lausnina ekki liggja í umburðarlyndi og félagslegum umbótum. Í þessu samhengi er áhugavert að skoða sameiginleg einkenni franskra hryðjuverkamanna. Ég vildi að ég væri að tala um franskar uppskriftir í glaðlegra samhengi, en þegar bakgrunnur hryðjuverkamannanna er skoðaður virðist raunverulega vera um ákveðið mynstur, ákveðna uppskrift, að ræða. Því miður höfum við úr talsverðu að moða núna. Mohammed Merah í Toulouse 2012, Mehdi Nemmouche í Brussel 2014, Chérif og Saïd Kouachi ásamt Amédy Coulibaly í París í janúar 2015. Síðan hefur verið staðfest að Ismaël Omar Mostefaï, Samy Amimour, Bilal Hadfi og að lokum Brahim og Salah Abdeslam hafi tekið þátt í hryðjuverkunum 13. nóvember síðastliðinn.

Þessir hryðjuverkamenn eiga allir sameiginlegan uppruna í frönsku nýlendunum, þar sem framgangur Frakka var skammarlegur og einkenndist af ofbeldi og arðráni. Þessi uppruni sést á nöfnum þeirra, og í Frakklandi er ekki það sama að heita Mohammed og Pierre. Fordómarnir eru svo miklir og djúpir að ég fann fyrir þeim sjálf sem unglingur í Frakklandi. Líkurnar á að alast upp í niðurdrepandi banlieues - vanræktum úthverfum - eru töluvert meiri og tækifærin í lífinu þeim mun færri. Enginn hryðjuverkamannanna fór í gegnum skóla þar sem öfgakennt íslam er ræktað eins og Ólafur Ragnar minnist á. Þeir fóru í gegnum franska skólakerfið sem hampar gildum lýðveldisins: Liberté (frelsi), égalité (jöfnuður) og fraternité (bræðralag) en komust væntanlega fljótt að því að þessi gildi eiga ekki eins mikið við um þá og hvíta Frakka. Að skólagöngu lokinni eru auknar líkur á atvinnuleysi og þ.a.l. afbrotaferli og notkun fíkniefna.  Bakgrunnur þeirra sem stóðu að baki árásunum 13. nóvember er enn að einhverju leyti óljós. Við vitum hins vegar að öfgavæðing Merah, Nemmouche, Chérif Kouachi, Coulibaly og Salah Abdeslam átti sér stað fyrst í fangelsi og síðan í litlum, lokuðum hópum utan þess (sjá hér og hér). Flestir þeirra byrjuðu ekki að leggja rækt á íslam fyrr en í samhengi öfganna en ekki öfugt. Og þó trúarlega hliðin á hugmyndum þeirra hafi vissulega verið ræktuð í moskum sem að einhverju leyti viðhöfðu hatursáróður (eins og margir kristnir söfnuðir gera) voru hryðjuverkin ekki skipulögð þar.

Samy Amimour, einn af árásarmönnunum í Bataclan tónleikasalnum, sýnir síðan aðra hlið á öfgavæðingu. Þrátt fyrir alsírskan uppruna naut fjölskylda hans ákveðinna lífsgæða, hann lauk stúdentsprófi og fékk vinnu sem strætóbílstjóri. Faðir hans, sem ferðaðist til Sýrlands sumarið 2014 og reyndi að sannfæra hann um að yfirgefa Daesh (annað heiti yfir Íslamska ríkið, sem þeir sjálfir hafa óbeit á) án árangurs, byrjaði að hafa áhyggjur af honum þegar hann fann „trúna“ allt í einu og byrjaði að biðja, jafnvel í laumi, því það tíðkaðist ekki á heimilinu. Þessi þögla tegund af öfgavæðingu er algengari hjá þeim sem hafa snúist til íslam eftir að hafa alist upp við önnur trúarbrögð. Sá hópur er talinn vera 30-40% af öfgavæddum einstaklingum í Frakklandi. Fethi Benslama, geðlæknir sem vinnur nú að sköpun miðstöðvar fyrir ungmenni sem koma heim til Frakklands eftir dvöl í Sýrlandi, lýsir því að öfgavæðing geti verið aðlaðandi fyrir ungmenni (flestir öfgavæddir Frakkar eru 15-25 ára) sem þjást af miklum sjálfsmyndarerfiðleikum. Í öfgunum virðast menn finna einhvers konar heildarlausn og tilgang, að vera hermaður Guðs í heilögu stríði.

Abdelhamid Abaaoud, ætlaður höfuðpaur hryðjuverkanna í París. MYND: EPA

Þegar maður vill að einhver hætti að elda eftir ákveðinni uppskrift er áhrifaríkt að gera hráefnið óaðgengilegt. Meðal þeirra hráefna sem notað er í franska hryðjuverkamenn er félagsleg jaðarsetning og sálfræðilegir erfiðleikar. Það er barnaleg einfeldni að líta framhjá því. Alls staðar í Frakklandi spyr fólk sig hvernig við getum komið í veg fyrir að ungmenni sjái það sem lausn vandamála sinna að ganga til liðs við Daesh. Margir eru sammála um að aukið umburðarlyndi og félagslegar úrbætur í Frakklandi séu liður í því, þó það sé að miklu leyti flóknara og tímafrekara í útfærslu en tal um að knésetja erlendan óvin og varpa sprengjum. Að sjálfsögðu spila ótal aðrir þættir inn í og jafnvel sérfræðingar í öfgavæðingu eru ósammála um flókið orsakasamhengið sem nær frá frönsku úthverfunum til ástandsins í Mið-Austurlöndum. Staðan er ekki svo flókin hér á Íslandi. Meðal annars erum við ekki eins djúpt sokkin í félagslega jaðarsetningu og Frakkar, heldur frekar í stöðu til að fyrirbyggja hana. 

Ráðamenn í Frakklandi eru nú hvattir (sjá hér) til þess að slíta samskiptum við Sádí-Arabíu og Katar, í það minnsta þangað til þessi konungsríki hafa hætt samskiptum sínum við hryðjuverkasamtök og þegnar þeirra fá að njóta mannréttinda. Það er eitthvað sem forseti Íslands gæti gert í stað þess að bjóða embættismönnum Sádí-Arabíu á Bessastaði, hrósa þeim og snúa því síðan upp í tortryggni gagnvart múslimum á Íslandi. En það virkar kannski ekki eins öflugt og að hampa stríðsrekstri og stilla sér upp með Hollande, Obama og Pútín. Það er minna en vika síðan 129 manns féllu í árusunum í París og enn berjast mörg fórnarlömb hryðjuverkamannanna fyrir lífi sínu. Ólafur Ragnar Grímsson ætlar greinilega að grípa þessa særðu, frönsku gæs meðan hún gefst.

Styrkir þú Kjarnann?

Kjarninn reiðir sig á framlög lesenda. Með því að styrkja Kjarnann mánaðarlega tekur þú þátt í að halda úti öflugum fjölmiðli.

Kjarninn hefur verið til taks fyrir kröfuharða lesendur í sjö ár og býður almenningi upp á vandaða umfjöllun þar sem áhersla er á gæði og dýpt.  

Ef þú ert nú þegar styrkjandi leyfum við okkur að benda á að hægt er að óska eftir að hækka styrkinn með því að senda póst á takk@kjarninn.is


Já takk, ég vil styrkja Kjarnann!
Svona mun Sigurboginn líta út fram til 3. október
Sigurboginn klæddur í 25 þúsund fermetra plastklæði
Fyrsta stóra verkefni Christo og Jeanne-Claude hefur litið dagsins ljós eftir andlát Christo. Það hefur verið lengi í undirbúningi en um þúsund manns koma að uppsetningunni og kostnaður nemur rúmum tveimur milljörðum króna.
Kjarninn 18. september 2021
Ragnar Þór Ingólfsson
Land tækifæranna, fyrir útvalda!
Kjarninn 18. september 2021
Líkurnar á að ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur haldi velli komnar niður í 38 prósent
Í lok ágúst voru líkurnar á því að sitjandi ríkisstjórn myndi halda 60 prósent. Þær hafa minnkað hratt en á sama tíma hafa líkurnar á myndun fjögurra flokka stjórnar án Sjálfstæðisflokks aukist umtalsvert.
Kjarninn 18. september 2021
Sólveig Anna Jónsdóttir
Sjálfsvirðing
Kjarninn 18. september 2021
Bára Huld Beck
Trúir einhver þessari konu?
Kjarninn 18. september 2021
Stefán Ólafsson
Rangfærslur Áslaugar Örnu um skatta
Kjarninn 18. september 2021
Utanríkisráðuneytið afturkallaði einungis eitt liprunarbréf af öllum þeim sem gefin voru út eftir að faraldur COVID-19 skall á.
Einungis eitt liprunarbréf afturkallað af fleiri en tvö þúsund slíkum
Liprunarbréfið sem Jakob Frímann Magnússon óskaði eftir fyrir barn vinar síns í mars í fyrra er það eina sem utanríkisráðuneytið hefur þurft að afturkalla af fleiri en tvö þúsund slíkum sem gefin voru út eftir að faraldur COVID-19 hófst.
Kjarninn 18. september 2021
Steinar Frímannsson
Óvissuferð án fyrirheits – Umhverfisstefna Framsóknarflokks
Kjarninn 17. september 2021
Meira úr sama flokkiAðsendar greinar
None