Bjarni Benediktsson, efnahags- og fjármálaráðherra, segir að gagnrýni sem nú snúi að stjórnvöldum, vegna þess að ekki standi til að lækka tryggingargjaldið, sé í raun yfirlýsing um að laun hafi hækkað of mikið, og að atvinnulífið ráði ekki við umsamdar launahækkanir.
Tryggingargjaldið er 7,5 prósent, og leggst ofan á laun, og er þannig hluti af launatengdum gjöldum. Það var hækkað vegna þess að atvinnuleysi jókst hratt eftir hrun fjármálakerfisins, en hefur ekki lækkað aftur, þrátt fyrir að atvinnuleysi séu nú mun minna, en það mælist nú 3,8 prósent.
Samtök atvinnulífsins og verkalýðshreyfingin hafa þrýst á um tryggingargjaldið verði lækkað, eins og rætt var um að stjórnvöld myndu gera þegar kjarasamningar voru gerðir.
Ef að Bjarni er að gagnrýna aðila vinnumarkaðarins, fyrir að semja um innistæðulausar hækkanir launa, þá ætti hann að líta sér nær, því laun hafa hækkað hratt og mikið hjá opinberum starfsmönnum líkt og á einkamarkaði. Stjórnvöld voru þar við samningaborðið, og sömdu um launahækkanirnar, sem síðan leiddu áfram yfir allan vinnumarkaðinn, og alveg til æðstu ráðamanna, þingmanna, ráðherra, forsetans og dómara. Engin stétt fékk þó jafn hraða hækkun launa og síðastnefndu stéttirnar, eða 9,3 prósent hækkun í einu, samkvæmt ákvörðun kjararáðs, afturvirkt frá marsmánuði.
Það sem réttara væri hjá Bjarna að horfa á, er hvort tryggingargjaldið, eins og það er nú, sé skynsamur skattur, einkum og sér í lagi fyrir lítil og meðalstór fyrirtæki. Skatturinn er það hár, að í raun fer ígildi áttunda hvers starfs til ríkisins í gegnum tryggingargjaldið. Hugsanlega er gjaldið að valda því að lítil fyrirtæki eiga bágt með að fjölga starfsfólki, vegna þessa, og þá er gjaldið farið að draga úr tekjum ríkissjóðs og hagkerfisins.