Varðandi grein sem birtist þann 3. desember á kjarninn.is og fjallaði um bættan hag útgerðar vegna lækkandi heimsmarkaðsverðs á olíu.
Í greininni kemur fram eftirfarandi:
„Gróflega reiknað þarf útgerðin í dag að borga rúmlega 10 milljörðum kr. minna fyrir olíuna á ársgrundvelli miðað við árið í fyrra.“
Því miður er sparnaður útgerðarfélaga ekki nálægt því jafn mikill og sagt er í greininni.
Í greininni er fjallað um lækkun á hárolíu (e. Brent Crude oil). Það er rétt að heimsmarkaðsverð á olíu hefur lækkað mikið frá því sumarið 2014.
· Meðaltalsverð á Brent Crude oil árið 2014 var USD 98,7 á tunnu.
· Meðaltalsverð á Brent Crude oil það sem af er árs 2015 er USD 55,3 á tunnu.
· Af ofangreindu leiðir að lækkun á heimsmarkaðsverði (Brent Crude oil) á milli áranna 2015 og 2014 er um 44%.
Á sama tíma hefur meðaltalsverð á olíu til íslenskra fiskiskipa lækkað um 18%.
· Ástæðan fyrir því að verðlækkun á heimsmarkaðsverði á olíu skilar sér ekki með fullum þunga til íslenskra fiskiskipa er aðallega vegna eftirfarandi þátta:
o Sé meðalgengi bandaríkjadals (USD) í íslenskum krónum (ISK) borið saman á milli áranna 2015 og 2014 sést að gengi USD hefur styrkst um 13% gegn ISK á umræddu tímabili. Gengisstyrking USD þýðir að innkaupsverð á olíu í íslenskum krónum hækkar.
o Hið opinbera leggur kolefnisgjald sem fasta krónutölu á hvern líter olíu til skipa sem nemur kr. 5,89 á líter árið 2015, gjaldið var kr. 5,75 á líter árið 2014.
o Olíubirgðir eru keyptar til landsins til nokkurra mánaða í senn sem tefur verðbreytingu á heimsmarkaði inn á innlendan markað.
o Flutningskostnaður, dreifingakostnaður og álagning olíufélaga leggst á innkaupsverð erlendis frá.
·Ef gefin er sú forsenda að olíunotkun í magni árið 2015 sé í takti við það sem hún var árið 2013. Þá má gróflega stilla málinu upp með eftirfarandi hætti:
Olíukostnaður sjávarútvegs skv. Hagstofunni árið 2013 var 17 milljarðar króna.
Lækkun um 18% þýðir 3,1 milljarða króna lækkun en ekki 10 milljarðar króna lækkun líkt og sett er fram í greininni!
Olíunotkun sveiflast að sjálfsögðu með veiddum afla á hverju ári en gróft á litið má ætla að olíunotkun áranna 2013 og 2015 sé álíka vegna svipaðrar aflasamsetningar.
Höfundur er aðstoðarframkvæmdastjóri SFS.