Það er ekki hægt að segja annað, en að dómurinn í máli ákæruvaldsins gegn Ástu K. Andrésdóttur hjúkrunarfræðingi og Landspítalanum, þar sem ákæruefnið var manndráp af gáleysi og brot á hjúkrunarlögum, marki tímamót. Ákærðu voru sýknuð, og var þeirri niðurstöðu ákaft fagnað þegar hún lá fyrir.
Ekkja mannsins sem lést, sagðist enn fremur vera afskaplega ánægð með niðurstöðuna og sagðist aldrei hafa ásakað konuna vegna þess atviks, sem leiddi til þess að maður hennar lést 4. október 2012.
Vonandi verður þetta mál, hvernig sem málslokin verða, fari það fyrir Hæstarétt, til þess að álag á Landspítalanum verði raunverulega kannað, og verkferlar á spítalanum skoðaðir í því ljósi. Lengi hafa starfsmenn á spítalanum kvartað yfir álagi og að ekki gangi lengur að gera ekkert í málunum.
Það jákvæða sem getur komið úr þessu annars erfiða og alvarlega máli, er að stjórnvöld og stjórnendur á spítalanum vinni saman að því að greina hvernig megi bæta starfsaðstæður. Þar er lykillinn vitaskuld nægt fjármagn til rekstrar, en fleiri atriði, sem snúa að faglegum þáttum, þurfa vitaskuld einnig að vera í forgangi. Yfirlýsing á vef Landspítalans bendir til þess að málið hafi verið tekið föstum tökum, og að markmiðið sé að læra af því sem aflaga fór.
Um leið er það síðan umhugsunarefni hvort það var rétt að ákæra í málinu í upphafi.