Þórður Magnússon, stjórnarformaður Eyris Invest og reynslumikill fjárfestir og stjórnandi í íslensku atvinnulífi um árabil, var í viðtali við Morgunblaðið í gær.
Þar var hann meðal annars spurður út í kosti og galla við það að vera með rekstur fyrirtækja á Íslandi.
Svarið var eftirfarandi:
„Kostirnir: Gott samfélag, falleg náttúra og gott mannlíf. Jákvætt og hugmyndaríkt fólk sem getur látið hlutina gerast.
Gallarnir: Þekking og reynsla lifir ekki af kosningar. Það er stöðugt hringl og breytingar sem er skellt á með engum fyrirvara. Óstöðugt pólitískt umhverfi sem lærir ekki af reynslunni. Nú er að myndast fóður í nýja snjóhengju vegna vaxtamunarviðskipta sem erfitt er að sjá hvernig verður við ráðið. Talið er að íslenska krónan kosti okkur 100 til 200 milljarða á ári (mismunandi mat ólíkra hagsmunaaðila). Framleiðni er ekki meiri en annars staðar. Þetta eru rosalegar fjárhæðir sem geta ekki annað en komið niður á lífskjörum okkar.“
Svo mörg voru þau orð. Skarpt mat á stöðu mála.