Loftslagsráðstefnan í París hefur verið kölluð mikilvægasti fundur aldarinnar. Ástæðan er sú að loftslagsbreytingar af manna völdum ógna framtíð mannkyns og ef ekki verður gripið til aðgerða nú kann að vera of seint að gera neitt til að snúa þróuninni við.
Markmið fundarins var að ríki heimsins kæmu sér saman um að hlýnun yrði innan við tvær gráður, helst ekki meira en ein og hálf gráða en slík hlýnun mun t.d. hafa það í för með sér að mörg eyríki í Kyrrahafinu munu hverfa undir haf og íbúar þeirra munu þurfa að taka sig upp með manni og mús og finna sér annað stað á jörðinni.
Á fundinum virtust nánast allir sammála um að það yrði að ná einhverju slíku markmiði en ekki endilega um hvað þyrfti að gera til að ná því. Ríki heims eru enn að veita opinbert fé til að framleiða óendurnýjanlega orkugjafa, s.s. olíu, kol og gas. Raunar er opinber stuðningur við óendurnýjanlega orkugjafa talsvert meiri en við endurnýjanlega orkugjafa sem er þvert á öll opinber markmið. Þannig virðast stundum orð og gjörðir ekki fara saman enda eru ríkir hagsmunir sem toga í ólíkar áttir.
Í París var deilt um fjármuni, hve miklu ætti að vera til að styrkja þróunarlöndin til að draga úr losun, breyta atvinnuuppbyggingu og orkunotkun, rækta land og skóg. Álitamál var hve þétt ætti að uppfæra markmið samlomulagsins, hvort það ætti að vera á fimm ára fresti eða sjaldnar. Ennfremur var deilt um það fjármagn sem þyrfti til að laga sig að þeim loftslagsbreytingum sem munu verða. Síðast en ekki síst var deilt um það hvort þróunarlöndin skulda eyríkjunum sem að öllum líkindum munu sökkva í sæ vegna loftslagsbreytinga af manna völdum sanngirnisbætur.
Samkomulag í París mun ekki breyta neinu sjálfkrafa. Það mun hins vegar gefa okkur sameiginlegan skilning á því hvaða aðgerða er þörf og gefa okkur öllum; stjórnmálamönnum, embættismönnum, almenningi og fyrirtækjum, tæki til að fylgjast með því að unnið verði að þeim aðgerðum, vonandi með eins gagnsæjum og lýðræðislegum hætti eins og unnt er.
Það er okkar sannfæring að stjórnmálamenn úr ólíkum áttum eigi að taka höndum saman um þetta verkefni og vinna að heilindum af því að sporna gegn frekari loftslagsbreytingum og tryggja þannig fólki um heim allan mannsæmandi lífsskilyrði til langrar framtíðar. Það er ábyrgð okkar gagnvart komandi kynslóðum.
Birgitta Jónsdóttir, Höskuldur Þórhallsson, Katrín Jakobsdóttir, Ragnheiður Ríkharðsdóttir, Róbert Marshall og Valgerður Bjarnadóttir.
Höfundar voru fulltrúar Alþingis á loftslagsráðstefnunni í París.