s
Í dag er stór dagur í íslenskri knattspyrnusögu. Dregið verður í riðla fyrir úrslitakeppni EM karlalandsliða sem fram fer í Frakklandi næsta sumar, en eins og alþjóð veit tókst karlalandsliðinu að feta í fótspor kvennalandsliðsins, og komast í úrslitakeppni stórmóts í fyrsta sinn. Ísland er fámennasta landið í knattspyrnusögunni sem kemst í úrslitakeppni stórmóts karlalandsliða. Viðburðurinn hefst klukkan 17:00, og verður lýst beint á vef Knattspyrnusambands Evrópu, UEFA.
Mikil eftirvænting er hjá íslensku þjóðinni vegna þessa, en búist er við því að þúsundir Íslendinga muni sækjast eftir miðum á leiki landsliðsins. Opnað verður fyrir sölu á miðum á leiki Íslands 14. desember og verður hún opin til 18. janúar, að því er fram kemur á vef KSÍ.
Hvaða þjóðir ætli verði með Íslandi í riðli, og hvar ætli leikir Íslands fari fram? Þetta skýrist í dag...